föstudagur, apríl 18, 2003

Skoðuðum Windsor kastala í dag sem er hér nálægt en gátum bara skoðað hluta af honum þar sem hann var lokaður að mestu vegna einhverra athafna sem þar fóru fram. Fengum við því bara að ganga um kastalasvæðið og sluppum við að borga aðgangseyririnn sem var 1.300 íslenskar krónur ... var það samt ágætt í blíðunni þar sem hér er ennþá stuttbuxnaveður og sólarblíða og yfir 20 stiga hiti. Gamli er orðinn sólbrunninn á skallanum, Ingó á nefinu, mæðginin á öxlunum, Valdi á hægri hendinni en Inga Huld harkar þetta allt saman af sér og er mjög sátt við lífið og tilveruna.

Strákarnir fóru síðan á völlinn eftir að hangikjötið og uppstúfurinn var snæddur. Reading-Nottingham Forest byrjaði kl. 7:45 með miklum látum - 21.612 áhorfendur mættir á þennan líka fína leikvang. Leikurinn rosagóður - liðin spiluðu reyndar varsamlega í byrjun og ekki mikið um færi, samt nóg sungið og hrópað. Um miðjan seinni hálfleik skoraði Reading síðan glæsilegt skallamark og ætlaði allt um koll að keyra. Var greinilegt að íslensk stuðningshróp þriggja Íslendinga á vellinum höfðu mikið að segja þar sem þessi sigur nokkurn veginn tryggir Reading liðið í Play-Offs til að komast í Úrvalsdeildina. Gleymdi að tilkynna ykkur að þessi leikur var sýndur á Sky-Sport þannig að þið hefðuð getað fylgst með okkur þar. Þessi leikur er fín upphitun fyrir Úrvalsdeildarleikinn á morgun í Birmingham ... Aston Villa - Chelsea.

Engin ummæli: