Þrumur, eldingar og haglél
Þegar ég fór í skólann í morgun á bókasafnið að lesa þá var þessi sama veðurblíða og verið hefur - hafði helst áhyggjur af því hvort ég ætti að fara í peysu eða ekki.  Eftir hádegi byrjaði svo að ganga á með skúrum og síðan koma þetta rosalega þrumuveður og eldingar sem stóð yfir í um klukkutíma með mikilli rigningu og hagléli.  Risa haglél sem kom þannig að annað eins hefur nú varla sést.
Jóa annars byrjuð að baka fyrir gestinn sem kemur á morgun ...munur að fá svona gesti í heimsókn !!  Inga Huld er orðin voða spennt.  Hún vill alltaf fara núna í leiksólann í regngallanum þannig að við teljum að fóstrurnar haldi að við séum eitthvað klikkuð að dressa barnið svona upp í stígvél, pollabuxur og regnjakka.  Hún er greinilega bara einsog flestir aðrir Íslendingar sem klæða sig eftir veðri.
Hverjir eru annars þessi Kjaradómur ??  Hvernig dettur þeim í hug að geta rökstutt hátt í 20% hækkun á launum á þessum tímum núna þegar búið er verið að halda aftur af launum í almennum kjarasamningum, verðbólgan er lág og atvinnuleysi að aukast.  Maður einsog Helgi Hjörvar er að fá yfir 600 þúsund í laun á mánuði - þvílíkt rugl - fyrir að vera varaborgarfulltrúi (hvað gera þeir annars ??) og alþingismaður.  Fyndnast samt að þeir sáu ekki ástæðu til að hækka laun forsetans - enda er hann líka bara með um 1,4m á mánuði fyrir að gera ekki neitt.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli