
Jóhanna þurfti að skreppa í skólann að vinna í einhverju hópverkefni og ég og Inga Huld höfðum það verkefni að kaupa dót fyrir Herra Níels, hann var nefnilega búinn að bókstaflega slátra músinni á veiðistönginni, bæði búinn að slíta allar fjaðrir af henni og loks naga teygjuna í sundur af sjálfri stönginni. Við fundum ýmislegt sniðugt, meðal annars bolta fastan innan í hring þar sem Herra Níels getur ýtt í boltann og snýst hann þá í hringi, eltir hann boltann og reynir að ná honum en boltinn fer bara hraðar og Herra Níels nær honum ekki - þannig gengur þetta áfram endalaust og finnst honum þetta mjög sniðugt. Ingu Huld fannst samt ekki sniðugt þegar við löbbuðum upp Park Avenue að það var lokað að hluta vegna þess að það var verið að taka upp bíómynd - þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem við lendum í því að þurfa að taka á okkur krók vegna bíómyndaupptöku. Á götuna var búið að raða drulluskítugum bílum og stilla upp grasi og stráum svona hér og þar - síðan var rauður og glæsilegur Ford Mustang með áfastar myndavélar tilbúinn til að vera filmaður - í honum var stór hundur í framsætinu sem var reyndar ekki alvöru. Við erum þó spennt að sjá hvort við munum sjá þessa mynd í bíó en allavega sáum við engan frægan á svæðinu. Inga Huld var þó alveg viss um að það væri ekki verið að filma Ice Age 3 þar sem að það þyrfti að gerast uppi í fjöllum þar sem snjórinn væri en það væri þó ekki gott að þurfa að loka skíðasvæðinu á meðan filmað væri ... ýmsar pælingar í gangi ...

Í kvöldmatinn var síðan grillaður skötuselur með kartöflum og salati. Í tilefni laugardagsins var einnig desert - ávextir með rjóma ... namminamm ...
cheers
Engin ummæli:
Skrifa ummæli